Nokkrar athugasemdir um prófið, hvorki reiðilestur 
né skammir, en athugasemdir sem ég vona að 
nemendur hugsi um:

Í dæmi 1 skrifuðu margir upp lausnina fyrir punkthleðslu
beint úr bókinni. Hér var spurt um línuhleðslu. Það má nota
sömu skref og í bókinni, en rafsviðið næst línuhleðslunni
er ekki það sama og fyrir punkthleðslu. Það er best að finna
með lögmáli Gauss eða lesa beint úr bók.

Í þriðja dæminu geta flestir ekki heildað straumþéttleikann
yfir þverskurð leiðarans, þar þarf pólhnit og flestir nota
rangt yfirborðsfrymi! Síðan er ekki hægt að nota einfalt 
hlutfall af straumnum til að finna hlutstraum innan geisla
r. Straumþéttleikinn er ekki fasti!

Í fjórða dæmi er hægt að nota lýsingu úr bókinni með
smá umhugsun. Næstum engum dettur í hug að finna
vigurmættið A til þess að einfalda reikningana.
Við fórum í þetta í fyrirlestrum og dæmatímum.
Ég hélt að flestir könnuðust við svarið í d-lið
úr tilraunum eða fikti með spanhrif.

Dæmið með rafsvarann gekk mjög illa. Næstum engum
datt í hug að reyna hvort div(P)=0 fyrir fast
einsleitt vigursvið. Þetta þarf ekki að reikna, hvað
þýðir "div"? Það þarf líka að reikna hvað (a_r.P) er
til þess að nota í c-lið.

Eðlisfræðinemunum gekk illa með þeirra fimmta dæmi.
Þar þarf ekkert nema að skrifa niður lögmál Amperes
og Faradays fyrir E(r,t) og B(r,t) og muna eftir því að
þau eru líka tímaháð. Þá sést að E getur ekki verið 
fast einsleitt þegar tíðnin vex. Auðvitað er hægt að
skrifa niður bylgjujöfnuna beint, en það er hreinlegra
að leiða hana út í sívalningshnitakerfinu hér. 

Í heild gekk nemendum illa, ekki vegna lengdar prófs
heldur oftast vegna þess að framhaldsskólaaðferðir
fyrir einföld dæmi eru reyndar án umhugsunar á 
aðeins flóknari dæmi þar sem meðal annars þarf að
nota heildun. Prófið var langt, of langt, en það á
ekki að koma í veg fyrir að einhver dæmi séu vel
leyst.

Niðurstaðan vekur spurningar um hvers vegna nemendur
mæta illa í fyrirlestra og dæmatíma þar sem öll þessi
atriði eru tekin til umræðu. Flest dæmin má finna úr
texta bókarinnar, en svörin eru ekki í lausnaheftinu.
Mörg eru beintengd sýnidæmum í bókinni, var hún lesin?
Prófið er ekki um minnisatriði, heldur um aðferðafræði
og skilning sem þróa verður með dæmareikningi og rökhugsun.
Það gæti verið ástæða til þess að hlusta aðeins minna á
ráðleggingar eldri nema sem ef til vill lögðu sig ekki
fram við að skilja námsefnið eða mikilvægi þess. 
Sjálfstæð hugsun og vinnubrögð með heppilegum skammti af
fróðleiksþorsta duga hér best. 

Fyrir eðlisfræðinema er gott að hafa í huga að hér eru
þeir í fyrsta skipti (annað eða þriðja eftir því hvað við
teljum með) að fást við sígilda sviðsfræði að einhverju
viti. Það er nauðsynlegt að ná valdi á henni áður en 
fengist er við sígilda sviðsfræði í sveigðu rúmi! 
Þar koma þessi tilfelli öll fyrir aftur en í verulega
flóknari umhverfi.

Ég hef áhyggjur af nema í rafmagnsverkfræði sem getur ekki
fundið rafsviðið í kringum tvær flutningslínur eða í kringum
eina yfir leiðandi jörð. Lausnin er sýnidæmi í bókinni þar sem
rýmdin er reiknuð. Eins er erfitt að skilja að nemi geti trúað
því að rafsviðið innan einangrara með hleðsludreifingu tvískauts
á yfirborðinu sé hverfandi. Er þá hægt að skýla rafsviði með 
einangrara? Þetta dæmi má líka vinna frá sýnidæmi og dæmi í bókinni.
(Rafsvarandi kúla í ytra föstu rafsviði). Hvernig er hægt að skýla
rafsvið? Segulsvið? Þetta eru tæknilega mikilvægar spurningar. 

En það er engin ástæða til að örvænta. Það má alltaf bæta
kunnáttuna og skilninginn. Það er löngu ljóst að enginn lærir
rafsegulfræði í heild yfir nótt eða á einu misseri.
Ég er enn að læra í hvert skipti sem ég kenni námskeiðið.
Núna var ég að átta mig betur á því hvað setur tímaskala
í geislandi kerfum. Síðast var ég að átta mig betur á dreifingu
bylgna. Ég vona að þið eigið eftir að kynnast betur furðum
og fegurð rafsegulfræðinnar. Hverjum dytti í hug að ljósgeislar
í tómarúma geti verið bognir:
http://physics.aps.org/articles/v5/44